Gerrard sár yfir að vera tekinn af velli

Steven Gerrard í baráttu við Ayegbeni Yakubu í leiknum á …
Steven Gerrard í baráttu við Ayegbeni Yakubu í leiknum á laugardaginn. Reuters

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, viðurkennir að hann sé sár yfir því að hafa verið tekinn snemma af velli í nágrannaslagnum gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Hann kveðst eiga eftir að ræða málið nánar við knattspyrnustjórann, Rafael Benítez.

Gerrard hafði leikið vel og krækt í vítaspyrnuna sem færði Liverpool jöfnunarmarkið, 1:1, snemma í síðari hálfleik. Hann var tekinn af velli fljótlega eftir það og Lucas Leiva settur inná í hans stað. Benítez útskýrði skiptinguna með þvi að hann hefði viljað fá meiri yfirvegun í spil liðsins.

"Ég er heimastrákur og nágrannaslagurinn því afar mikilvægur í mínum augum. Ég hefði því ekkert viljað frekar en að spila allan tímann og vera inni á vellinum þegar við skoruðum sigurmarkið. En þetta þróaðist þannig að ég var tekinn af velli og Lucas Leiva sem kom í minn stað átti stóran þátt í sigurmarkinu," sagði Gerrard við staðarblaðið Liverpool Echo.<p>

"Ég var sár og vonsvikinn yfir þessu. Ég á eftir að ræða málin við stjórann og fá útskýringar á skiptingunni en ég mun ekki vera með nein læti. Við munum bara ræða málin og það sem fer okkur á milli verður trúnaðar mál. Ég hef verið það lengi í fótboltanum að ég ég átta mig á því að enginn spilar alla leiki og ég verð tekinn af velli af og til eins og aðrir," sagði Gerrard.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert