Wenger: Walcott er tilbúinn í landsliðið

Theo Walcott fagnar einu markanna í gærkvöld ásamt Cesc Fabregas.
Theo Walcott fagnar einu markanna í gærkvöld ásamt Cesc Fabregas. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði eftir að lið hans burstaði Slavia Prag, 7:0, í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld að hinn 18 ára gamli Theo Walcott væri tilbúinn til að spila með enska landsliðinu.

Walcott var mjög óvænt valinn í enska landsliðshópinn sem fór í lokakeppni HM í Þýskalandi sumarið 2006, þá nýorðinn 17 ára, en spilaði ekkert þar. Hann varð yngsti landsliðsmaður Englands þegar hann kom inná í vináttulandsleik gegn Ungverjum rétt fyrir keppnina í Þýskalandi. 

Hann hefur ekki komið við sögu með enska landsliðinu síðan og hefur komið hægt og rólega inn í lið Arsenal. Í gærkvöld sýndi hann snilldartakta, skoraði tvö mörk og lagði eitt upp.

"Þið kvartið yfir því að eiga ekki nógu mikið af sóknarmönnum og að Arsenal sé með of fáa enska leikmenn. Theo er þó einn af þeim. Hann er klókur, með frábæran hraða og stöðugt að bæta tæknina. Theo er mikið efni og þessvegna er hann hjá Arsenal. Ég er sannfærður um að hann hefur allt sem þarf til að ná mjög langt," sagði Wenger.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert