Liverpool í þriðja sæti eftir stórsigur á Bolton

Liverpool hefur ekki tapað leik í úrvalsdeildinni í vetur.
Liverpool hefur ekki tapað leik í úrvalsdeildinni í vetur. Reuters

Liverpool komst í dag í þriðja sætið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu með því að vinna mjög öruggan sigur á Bolton, 4:0, á Anfield.

Arsenal er efst með 36 stig, Chelsea er með 31 stig og Liverpool er nú með 30 stig, eins og Manchester United, en er með betri markatölu. Chelsea hefur leikið einum leik meira en hin þrjú liðin. Manchester City er síðan í fimmta sæti, einnig með 30 stig.

Finnski  varnarjaxlinn Sami Hyypiä kom Liverpool yfir á 17. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu frá Steven Gerrard.

Liverpool slapp heldur betur með skrekkinn á 38. mínútu. Þá rákust José Reina markvörður og Jamie Carraher varnarmaður Liverpool saman með þeim afleiðingum að Nicolas Anelka fékk boltann fyrir galopnu marki Liverpool en á óskiljanlegan hátt skaut hann framhjá.

Liverpool komst í 2:0 á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Gerrard átti þá sendingu innfyrir vörn Bolton á Fernando Torres sem skoraði.

Gerrard var enn á ferð á 56. mínútu en þá skoraði hann úr vítaspyrnu fyrir Liverpool, 3:0.

Ryan Babel skoraði fjórða markið á 85. mínútu, 4:0, fylgdi á eftir þegar skot frá Peter Crouch var varið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert