,,Vorum sammála um dóminn“

Kristinn á Goodison Park í gær.
Kristinn á Goodison Park í gær. Reuters

„Við Gunnar vorum báðir sammála um að leikmaðurinn hefði sett höndina fyrir skotið og þannig varið með hendi á marklínunni og því ekki um annað að ræða en að dæma vítaspyrnu og vísa leikmanninum útaf,“ sagði Kristinn Jakobsson í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi, klukkutíma eftir að viðureign Everton og rússneska liðsins Zenit lauk á Goodison Park.

Kristinn  var dómari leiksins, þeir Sigurður Óli Þórleifsson og Gunnar Gylfason voru aðstoðardómarar og Magnús Þórisson var fjórði dómari leiksins.

Kristinn dæmdi vítaspyrnu á Zenit í fyrri hálfleik og rak leikmann liðsins af velli í kjölfarið en ekki var annað að sjá af sjónvarpsmyndum en að Kristni og Gunnari hefðu orðið á mistök. Þeir mátu að Nicolas Lombaerts varnarmaður Zenit hefði varið skot með hendi á marklínu en af sjónvarpsmyndum að dæma fór boltinn ekki í hönd leikmannsins.

Ert þú búinn að sjá þetta atvik?

,,Nei, ekki nema þá í leiknum sjálfum. Svona ákvörðun er tekin á sekúndubroti en við Gunnar vorum alveg sammála um þennan dóm og við stöndum og föllum með því,“ sagði Kristinn en leikurinn í gær er líklega stærsta verkefnið sem Kristinn hefur verið úthlutað á dómaraferli sínum.

Varst þú sáttur við þína frammistöðu?

,,Já, við vorum bara mjög ánægðir með okkar frammistöðu og mér fannst leikurinn fljóta vel. Við náðum nokkrum sinnum í leiknum að bæta vel hagnaðarreglunni og við fengum fín viðbrögð hjá báðum liðum eftir leikinn. Leikmenn Zenit voru háttvísin og heiðarleikinn uppmáluð eftir leikinn og það voru engin mótmæli af þeirra hálfu,“ sagði Kristinn.

Spánverjinn Mikel Arteta framkvæmdi vítaspyrnuna sem Kristinn dæmdi en hann skaut hátt yfir mark Rússanna. Tim Cahill skoraði sigurmark Everton á 83. mínútu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert