Fimm tilnefndir í Afríku

Didier Drogba var kjörinn í fyrra og er tilnefndur á …
Didier Drogba var kjörinn í fyrra og er tilnefndur á ný. Reuters

Fimm leikmenn hafa verið tilnefndir í kjörinu á knattspyrnumanni ársins 2007 í Afríku, sem verður gert opinbert í febrúar. Þrír þeirra leika í ensku úrvalsdeildinni og tveir á Spáni.

Didier Drogba, Fílabeinsstrendingurinn frá Chelsea, sem var kjörinn knattspyrnumaður Afríku 2006, er tilnefndur á ný, sem og félagi hans í Chelsea, Ghanamaðurinn Michael Essien sem varð þriðji í kjörinu í fyrra.

Þriðji "enski" leikmaðurinn er Emmanuel Adebayor, sóknarmaður Tógó og Arsenal.

Mahamadou Diarra frá Malí, leikmaður Real Madríd, er tilnefndur í fyrsta sinn, og sá fimmti er landi hans, Frederic Kanoute, leikmaður Sevilla.

Það eru landsliðsþjálfarar 53 Afríkuríkja sem greiða atkvæði í kjörinu sem verður lýst við hátíðlega athöfn 1. febrúar, á meðan Afríkukeppni landsliða stendur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert