Markalaust hjá Portsmouth og Arsenal

Nwankwo Kanu hjá Portsmouth og William Gallas hjá Arsenal í …
Nwankwo Kanu hjá Portsmouth og William Gallas hjá Arsenal í baráttu um boltann í leiknum í kvöld. Reuters

Portsmouth og Arsenal skildu jöfn, 0:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Arsenal náði því ekki að endurheimta toppsætið og Manchester United trónir þar þegar keppnin er hálfnuð.

Manchester United er með 45 stig og Arsenal 44 en þar á eftir kemur Chelsea með 38 stig.

Arsenal sótti mun meira, sérstaklega í seinni hálfleik þegar liðið gerði oft harða hríð að marki Portsmouth. William Gallas fékk dauðafæri þegar 5 mínútur voru eftir en hann skaut yfir af markteig. Þegar tvær mínútur af fjórum voru liðnar í uppbótartíma skaut Tomás Rosický naumlega framhjá úr opnu færi.

Portsmouth fékk þó dauðafæri þegar nokkuð var liðið á seinni hálfleik. Benjani Mwaruwari komst þá einn innfyrir vörn Arsenal og lék framhjá Manuel Almunia markverði en Gael Clichy náði að forða marki með glæsilegum spretti.

Hermann Hreiðarsson lék allan leikinn í stöðu vinstri bakvarðar hjá Portsmouth og stóð sig vel.

 Lið Portsmouth: James, Lauren, Campbell, Distin, Hermann, Hughes, Diop, Kranjcar, Muntari, Kanu, Benjani.
Varamenn: Nugent, Utaka, Taylor, Traore, Begovic.

Lið Arsenal: Almunia, Sagna, Gallas, Toure, Clichy, Eboue, Fabregas, Flamini, Hleb, Rosický, Adebayor.
Varamenn: Bendtner, Song, Diarra, Diaby, Lehmann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert