Flamini: Hættum að afsaka okkur

Mathieu Flamini og Arsene Wenger eru á toppnum með Arsenal …
Mathieu Flamini og Arsene Wenger eru á toppnum með Arsenal en hafa gert þrjú jafntefli í röð. Reuters

Mathieu Flamini, franski miðjumaðurinn hjá Arsenal, hefur skorað á samherja sína og knattspyrnustjórann Arsene Wenger að hætta að afsaka úrslit síðustu leikja í úrvalsdeildinni og einbeita sér að framhaldinu.

Arsenal hefur gert þrjú jafntefli í röð í deildinni, gegn Birmingham, Aston Villa og Wigan, og því misst niður forskot sitt á Manchester United. Það er nú aðeins tvö stig og United á leik til góða.

Wenger fór mikinn eftir jafnteflið í Wigan um síðustu helgi og kenndi ástandi vallarins um að leikurinn endaði 0:0.

„Völlurinn var vissulega hræðilegur en hann var eins fyrir bæði liðin. Auðvitað viljum við spila boltanum og þurftum að beita meiri löngum sendingum en venjulega. En það er ekki hægt að væla yfir því og afsaka sig. Málið er einfalt, það þarf að skora mörk til að sigra og við gerðum það ekki. Þar með þurfum við að leggja enn harðar að okkur á æfingum og vera tilbúnir fyrir leikinn gegn Middlesbrough á laugardaginn. Sá sem vill vinna titla verður að vera tilbúinn til að berjast," sagði Flamini við Sky Sports.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert