Liverpool lagði Blackburn, 3:1

David Bentley og Alvaro Arbeloa í baráttu á Anfield.
David Bentley og Alvaro Arbeloa í baráttu á Anfield. Reuters

Liverpool styrkti stöðu sína í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með því að leggja Blackburn, 3:1, á Anfield þar sem öll mörkin voru skoruð í seinni hálfleik. Steven Gerrard, Fernando Torres og Andryi Voronin komu Liverpool í 3:0 en Roque Santa Cruz minnkaði muninn fyrir Blackburn á lokamínútunni.

Liverpool hefur 66 stig og er nú fimm stigum á undan Everton í baráttu grannliðanna um fjórða sætið.

Textalýsing frá leiknum er hér að neðan:

6. Jason Roberts kemur boltanum í marknetið hjá Liverpool. Markið dæmt af vegna rangstöðu en sá dómur orkar mjög tvímælis.

9. Fernando Torres nálægt frá því að skora sitt 30. mark á tímabilinu en kollspyrna hans eftir hornspyrnu Gerrards fer hárfínt framhjá markinu.

Fyrri hálfleikur er hálfnaður og er staðan enn markalaust. Liverpool hefur verið töluvert sterkari aðilinn en hefur náð að ógna mark Blackburn að neinu ráði.

25. Steven Gerrard er að sleppa einn í gegn en fellur eftir viðskipti við Cristopher Samba. Greinilega var brotið á Gerrard en Alan Wiley dómari sá ekkert athugavert og þar sluppu gestirnir með skrekkinn.

26. Liverpool fær besta færi leiksins en eftir vel útfærða skyndsókn fékk Steven Gerrard sendingu frá Dirk Kuyt rétt utan markteigsins en skot fyrirliðans misheppnaðist algjörlega.

34. Roque Santa Cruz kemst í þokkalegt færi en Pepe Reina ver skot Paragvæans úr þröngu færi.

Alan Wiley hefur flautað til hálfleiks á Anfield. Staðan er 0:0 í leik sem hefur einkennst af baráttu en hvort lið hefur aðeins átt eitt skot sem hefur hitt á markið.

52. Pepe Reina ver auðveldlega skot Norðmannsins Mortens Gamst Pedersen úr aukaspyrnu.

58. Ryan Babel er kallaður af velli í liði Liverpool og inná fyrir hann kemur Ísraelsmaðurinn Yossi Benayoun.

60. MARK! Steven Gerrard kemur Liverpool í 1:0. Eftir þríhyrningsspil við Lucas Leiva komst fyrirliðinn einn í gegn og setti boltann á milli fóta Brad Friedels. 21. mark Gerrards á leiktíðinni.

73. Blackburn gerir tvær breytingar á liði sínu. Morten Gamst og Vogel fara útaf og inná koma Benni McCarthy og David Dunn.

78. David Bentley með góða aukaspyrnu utan vítateigsins en boltinn rétt yfir mark Liverpool.

82.MARK! Fernando Torres skallar boltann í netið eftir frábæra fyrirgjöf frá Steven Gerrard. 30. mark Spánverjans á leiktíðinni og hans 22. í úrvalsdeildinni.

85. Torres er kallaður af velli og er fagnað gríðarlega þegar hann gengur af velli. Úkraínumaðurinn Andryi Voronin leysir Torres af hólmi.

87. John Arne Riise kemur inná fyrir Liverpool fyrir Xabi Alonso.

89. MARK! Voronin skorar nánast með sinni fyrstu snertingu eftir sendingu frá öðrum varamanni, John Arne Riise.

90. MARK! Roque Santa Cruz minnkar muninn í 3:1 með fallegu marki. Paragvæinn tók boltann á lofti og skoraði með föstu skoti. 19. mark hans á leiktíðinni.

Fyrir leik: 

Einnar mínútu þögn var fyrir leikinn til að minnast þeirra sem fórust í hinu hörmulega slysi á Hillsborough í Sheffield en 19 ár eru liðin frá þeim atburði. Leikmenn beggja liða bera sorgarbönd.

Fernando Torres framherji Liverpool hefur skorað 19 af 21 marki sínu í úrvalsdeildinni á Anfield.

Steven Gerrard fyrirliði Liverpool leikur sinn 300. deildarleik fyrir félagið en Gerrard, sem er 27 ára gamall, lék sinn fyrsta leik gegn Blackburn í nóvember 1998. Í leikjunum 299 hefur Gerrard skorað 54 mörk.

Peter Crouch er meiddur og er ekki í leikmannahópi Liverpool.

Javier Mascherano tekur út þriðja og síðasta leik sinn í banni í liði Liverpool.

Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Aurelio, Lucas, Alonso, Kuyt, Gerrard, Babel, Torres. Varamenn: Itandje, Hyypia, Riise, Voronin, Benayoun.

Blackburn: Friedel, Emerton, Samba, Nelsen, Warnock, Bentley, Vogel, Reid, Pedersen, Santa Cruz, Roberts. Varamenn: Brown, Ooijer, McCarthy, Mokoena, Dunn.

Steven Gerrard leikur í dag sinn 300. deildarleik fyrir Liverpool …
Steven Gerrard leikur í dag sinn 300. deildarleik fyrir Liverpool og hér fagnar hann með Fernando Torres. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert