Vidic sakar Drogba um leikaraskap

Nemanja Vidic liggur eftir návígi við Didier Drogba í síðasta …
Nemanja Vidic liggur eftir návígi við Didier Drogba í síðasta leik liðanna. Reuters

Taugastríðið fyrir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu færist í aukana og í dag sagði Nemanja Vidic, varnarmaður Manchester United, að dómaratríóið á leiknum í Moskvu yrði að hafa sérstakar gætur á Didier Drogba, sóknarmanni Chelsea.

„Stundum fer hann af hörku í návígin og stundum þykist hann vera afskaplega linur. Hann reynir að setja mann úr jafnvægi og fara að hugsa um næsta návígi. Stundum lætur hann sig detta til að reyna að fá vítaspyrnu en dómararnir þekkja það. Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu er stór viðburður og ég er viss um að dómarinn veit við hvað hann þarf að fást," sagði Vidic við dagblaðið Sunday Times í dag.

Vidic meiddist í návígi við Drogba í deildaleik liðanna á Stamford Bridge fyrir nokkrum vikum en vildi ekki kenna Chelsea-manninum um það. „Ég reyni aldrei að hlífa mér og það er stundum of auðvelt fyrir mótherjana að sparka í mig og meiða mig. Ég á ekki við að þeir geri það viljandi, slíkt bara gerist í leiknum, en kannski þarf ég að reyna að gæta mín betur. Ég fer í öll návígi til að ná boltanum, hvað sem það kostar," sagði serbneski miðvörðurinn.

Wayne Rooney, félagi Vidic, var líka tilbúinn til að tjá sig um Drogba. „Stundum er eins og hann sé ekki með hugann við leikinn. En þegar hann sýnir sínar bestu hliðar, er hann ótrúlegur leikmaður. Hann er stór og sterkur, skorar mörk með vinstri, hægri, skalla - stundum er hann óviðráðanlegur," sagði Rooney.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert