Ronaldo rýfur þögnina um Real Madrid

Cristiano Ronaldo á fullri ferð á æfingu portúgalska landsliðsins í …
Cristiano Ronaldo á fullri ferð á æfingu portúgalska landsliðsins í Sviss. Reuters

Portúgalski knattspyrnusnillingurinn Cristiano Ronaldo kveðst alls ekki fráhverfur því að ganga til liðs við Real Madrid en í dag var loksins eitthvað haft eftir honum sjálfum um málið eftir miklar vangaveltur.

Ronaldo sagði við brasilíska netmiðilinn Terra að það væri freistandi kostur að ganga til liðs við Real Madrid. „Mig langar til að spila með Real Madrid, en einvörðungu ef félagið er tilbúið til að greiða mér og Manchester United þær upphæðir sem það hefur nefnt. En ég vil taka skýrt fram að ég tek ekki ákvörðun í þessu máli, og frá þessari stundu mun ég ekki ræða það frekar fyrr að Evrópukeppninni lokinni. Það þýðir ekkert að spyrja mig því ég mun ekki svara," sagði Ronaldo.

Manchester United hefur brugðist mjög hart við yfirlýsingum Real Madrid um áhuga sinn á Ronaldo á undanförnum vikum. Ramon Calderon forseti spænska félagsins sagði í gær að hann vildi ekki taka áhættuna á að eyðileggja sambandið við Manchester United með því að bjóða í leikmanninn. En þar sem Ronaldo hefur nú gefið undir fótinn með að hann væri til í að spila á Spáni er spurning hvort frekari viðbragða sé að vænta úr herbúðum Spánarmeistaranna á næstunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert