Ronaldo: Verð hjá United næstu leiktíð

Portúgalinn Cristiano Ronaldo.
Portúgalinn Cristiano Ronaldo. Reuters

„Ég mun leika fyrir Manchester United af öllu mínu hjarta. Ég mun berjast, leggja mig allan fram og sýna United-treyjunni þá virðingu sem ég hef sýnt hingað til,“ er meðal þess sem portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo segir í viðtali sem birtist á morgun í portúgalska blaðinu Publico.

Sögusagnir um að Ronaldo sé á förum til Real Madrid hafa verið í gangi í allt sumar en nú virðist niðurstaða loks vera komin í málið, ef marka má ummæli allra hlutaðeigandi og nú síðast Ronaldo sjálfs.

„Sir Alex Ferguson fékk að vita mína afstöðu og ég fékk að vita hans, og niðurstaðan varð sú að það væri betra fyrir mig að vera hér kyrr. Þess vegna get ég staðfest að ég spila fyrir Manchester United á næstu leiktíð.

Áður en að fólk fer að tala um það að ég muni spila með hálfum hug vil ég koma því á hreint að hver sá sem það skrifar eða segir er að ljúga. Ég mun leika fyrir United af öllu mínu hjarta. Ég mun berjast, leggja mig allan fram og sýna United-treyjunni þá virðingu sem ég hef sýnt hingað til,“ segir Ronaldo við Publico.

„Ég er ábyrgur“ 

Portúgalinn tekur fulla ábyrgð á því „fíaskói“ sem verið hefur í kringum hugsanlega sölu á honum til Real.

„Ég ber ábyrgð á öllum þessum efasemdum. Ég gaf það út opinberlega að ég vildi fara til Real Madrid. Á endanum varð ég því, án þess að vilja það, ábyrgur fyrir slæmum samskiptum félaganna tveggja,“ segir Ronaldo sem útilokar alls ekki að fara til Real Madrid þegar fram líða stundir.

„Ég vissi að Real Madrid vildi kaupa mig og að hátt tilboð átti að hafa borist United. Ég þráði það í nokkurn tíma að United myndi ákveða að selja mig til Madrid. Ég væri að ljúga að sjálfum mér sem og öðrum ef ég héldi öðru fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert