West Ham gagnrýnt fyrir áfrýjunina

West Ham er áfram í fréttunum í Englandi vegna Tévez-málsins.
West Ham er áfram í fréttunum í Englandi vegna Tévez-málsins. Reuters

Stjórnarformaður enska knattspyrnusambandsins, Triesman lávarður, gagnrýnir Íslendingafélagið West Ham fyrir að hyggjast áfrýja úrskurði gerðardóms sambandsins í Tévez-málinu til Alþjóða íþróttadómstólsins í Sviss.

„Ef þetta mál á að halda áfram fyrir dómstólum mun það verða endalaust. Ég verð alltaf jafn undrandi á því hversu klókir lögfræðingar eru í því að þjarka um svona hluti. Vissulega er það réttur manna - en ég tel að það væri mikið einfaldara að sætta sig við reglurnar í fótboltanum. Enska knattspyrnusambandið er með ágætis regluverk og hvert einasta félag ætti að bera virðingu fyrir því," sagði Triesman í samtali við Sky Sports í dag.

Gerðardómur enska knattspyrnusambandsins úrskurðaði í vikunni að West Ham skyldi greiða Sheffield United um 5 milljarða króna í bætur. Sheffield United féll úr úrvalsdeildinni fyrir hálfu öðru ári, þegar West Ham, með Carlos Tévez í  aðalhlutverki, bjargaði sér frá falli á ævintýralegan hátt. West Ham hafði áður verið sektað af enska knattspyrnusambandinu fyrir að standa rangt að því að fá Tévez til félagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert