Knattspyrnusambandið rannsakar Shaun Wright-Phillips

Shaun Wright-Phillips gæti verið í vondum málum, takist að sanna …
Shaun Wright-Phillips gæti verið í vondum málum, takist að sanna meint brot hans. Reuters

Enska knattspyrnusambandið skoðar nú atvik úr leik Middlesborough og Manchester City, þar sem grunur leikur á að leikmaður City, Shaun Wright-Phillips, hafi sýnt þjálfara Middlesborough, Gareth Southgate, ekki bara einn, heldur tvo putta í leiknum, en slíkt táknmál þykir mjög niðrandi.

Dómari leiksins sá ekki atvikið og því er ekki getið um það í leikskýrslu. Það eina sem knattspyrnusambandið hefur í höndunum er ljósmynd, sem sýnir þó atvikið ekki í samhengi. Því er nú leitað að atvikinu á sjónvarpsupptökum.

Atvikið má rekja til þess að Wright-Phillips féll í jörðina eftir viðskipti sín við varnarmann í leiknum, og vildi Southgate meina að leikmaðurinn hefði látið sig detta að óþörfu. Einhver orðaskipti áttu sér þá stað, sem enduðu með fingramáli leikmannsins.

„Hann var ekki ánægður með hvað ég sagði. Hegðun okkar beggja var röng, en nú er þetta að baki,“ sagði Southgate.

Verði Wright-Phillips fundinn sekur, gæti hann átt háa sekt yfir höfði sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert