Wenger fær fé til leikmannakaupa

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal.
Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal. Reuters

Peter Hill-Wood stjórnarformaður Arsenal segir að Arsene Wenger fái fé til leikmannakaupa í janúar kjósi hann að styrkja leikmannahópinn en Lundúnaliðinu hefur ekki vegnað sem best á leiktíðinni og hefur þegar tapað fimm leikjum af 14 í úrvalsdeildinni.

Hill-Wodd segir Wenger hafi aldrei verið neitað um fé til leikmannakaupa en franski knattspyrnustjórinn hefur verið nokkuð gagnrýndur fyrir að veðja um of á unga leikmenn í stað þess að fjárfesta í reynslumeiri leikmönnum. 

,,Það hafa verið vangaveltur um að við stöndum í vegi fyrir Wenger að kaupa leikmenn en það er ekki málið,“ sagði Hill-Wood í viðtali við Arsenal sjónvarpið.

,,Wenger hefur nálgast þetta á skynsamlegan máta. Hann lætur ekki undan þrýstingi frá fjölmiðlum eða stuðningsmönnum með því að kaupa eitthvað heldur tekur hann ákvörðun um kaup ef hann telur viðkomandi geta styrkt liðið og sé hæfileikaríkur. Hann hefur peninga til staðar vilji hann fjárfesta í nýjum leikmönnum,“ sagði stjórnarformaðurinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert