Owen ekki á leið til Liverpool

Litlar líkur eru á því að Michael Owen klæðist búningi …
Litlar líkur eru á því að Michael Owen klæðist búningi Liverpool á ný, þó það sé eflaust draumur margra stuðningsmanna liðsins. Reuters

Rafael Benitez, stjóri Liverpool, hefur þverneitað þeim orðrómi að fyrrum gulldrengur félagsins, Micheal Owen, sé á leið til Liverpool, eftir mögur ár með Newcastle og Real Madrid.

Owen á enn eftir að skrifa undir nýjan samning við Newcastle en núverandi samningur hans rennur út í júní á næsta ári. Orðrómur um að Owen snúi aftur heim hefur verið hávær undanfarið, enda eru fordæmi fyrir endurkomu gulldrengja til liðsins, en Robbie Fowler sneri aftur á Anfield tímabilið 2006-07 og gerði þá átta mörk í 30 leikjum.

„Torres verður leikfær innan tíðar og ég get fullvissað alla um að við erum klárlega ekki að reyna fá Micheal Owen. Klárlega,“ sagði Benitez ákveðinn.

Liverpool veitir þó kannski ekki af öðrum framherja, en Robbie Keane hefur ekki náð sér á strik það sem af er tímabili og virðist þjást af skorti á sjálfstrausti, sem ekki er óalgengt meðal framherja þegar þeir eru keyptir til Liverpool, enda væntingarnar miklar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert