City sagt greiða 14 milljónir punda fyrir Bellamy

Craig Bellamy er á leið til Manchester City.
Craig Bellamy er á leið til Manchester City. Reuters

Manchester City mun greiða West Ham 14 milljónir punda, 2,6 milljarða íslenskra króna, fyrir framherjann Craig Bellamy að því er breskir fjölmiðlar greina frá í morgun en félögin komust að samkomulagi um kaupverðið í gærkvöld. Gianfranco Zola knattspyrnustjóri West Ham segist ætla að nota upphæðina til að styrkja leikmannahóp sinn.

Bellamy mun í dag ræða við forráðamenn Manchester City um kaup og kjör og í framhaldinu mun hann gangast undir læknisskoðun en welski framherjinn kom þeim skilaboðum til Zola á föstudaginn að hann vildi fara frá félaginu og ákvað Zola því ekki að tefla honum fram í leiknum gegn Fulham í gær.

West Ham keypti Bellamy frá Liverpool árið 2007 og greiddi fyrir hann 7,5 milljón punda en þessi 26 ára gamli sóknarmaður hefur koma víða við á ferli sínum. Hann hefur leikið með Norwich, Coventry, Newcastle, Celtic, Blackburn, Liverpool og West Ham.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert