Arshavin gæti þurft að kaupa upp samning sinn við Zenit

Andrei Arshavin gæti neyðst til að kaupa upp samning sinn …
Andrei Arshavin gæti neyðst til að kaupa upp samning sinn til að komast frá Zenit. Reuters

Viðræður Arsenal og Zenit frá Sankti Pétursborg um kaup Lundúnaliðsins á Andrei Arshavin virðast í pattstöðu, þar sem Arsenal vill ekki greiða uppsett verð. Umboðsmaður Arshavin segir koma til greina að leikmaðurinn kaupi upp samning sinn við Zenit, þá sé hann laus allra mála.

„Því miður er engin hreyfing á málinu. Þetta strandar allt á peningum, því Zenit krefst mjög ósanngjarnrar upphæðar fyrir leikmanninn. Ef viðhorf Zenit breytist ekki munum við nýta okkur lagagrein 17 í FIFA lögunum, og kaupa upp samning Arshavin hjá félaginu, en það gæti gerst í nóvember á þessu ári,“ sagði umboðsmaður leikmannsins, Dennis Lachter.

Lagagrein 17 kveður á um að leikmaður geti rofið samning sinn við félag sitt með því að kaupa upp samninginn, samkvæmt ákveðinni reikniformúlu, sem er tengd launum hans og kaupverði. Þetta er aðeins hægt þremur árum eftir að viðkomandi leikmaður kemur til liðsins, sé hann undir 28 ára aldri, sé hann eldri þarf hann aðeins að bíða í tvö ár.

Arshavin er 27 ára og hefur verið hjá Zenit frá árinu 2000 og getur því hæglega nýtt sér þessa klásúlu.

„Ef slíkt ástand kæmi upp fengi Zenit mun minna fyrir leikmanninn en ella, ef þeir tækju tilboði Arsenal. Og ef Arshavin verður samningslaus, munu eflaust fleiri stórlið reyna að semja við hann,“ bætti Lachter við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert