Yfirlýsing frá Breiðabliki

Jóhann Berg Guðmundsson, til hægri, ásamt Guðmundi Kristjánssyni.
Jóhann Berg Guðmundsson, til hægri, ásamt Guðmundi Kristjánssyni. Morgunblaðið/Brynjar Gauti

Knattspyrnudeild Breiðabliks segir í yfirlýsingu sem birt er á vef stuðningsmanna Breiðabliks, blikar.is, að það kannist ekki við þær lýsingar sem hafðar eru eftir Chris Coleman, knattspyrnustjóra Coventry, í enska blaðinu Coventry Telegraph um samningamál félagsins við Jóhann Berg Guðmundsson.

Yfirlýsingin er þessa vegu;

Knattspyrnudeild Breiðabliks kannast ekki við þær lýsingar Colemans, sem hafðar eru eftir honum í Coventry Telegraph, á þeirri atburðarásar sem átti að hafa átt sér stað vegna hugsanlegrar sölu á Jóhanni Berg Guðmundssyni.

Í Coventry Telegraph er haft eftir Coleman að Coventry hafi náð samkomulagi við Jóhann Berg Guðmundsson. Heimild Breiðabliks til slíks samkomulags lá ekki fyrir, leikmaðurinn hefur ekki skýrt knattspyrnudeildinni frá slíku samkomulagi og því drögum við í efa að slíkt samkomulag liggi fyrir.

Coleman greinir jafnframt frá því að ekki hafi náðst samkomulag við Knattspyrnudeild Breiðabliks og er látið að því liggja í viðtalinu að fégræðgi deildarinnar hafi haft áhrif þar á. Coleman segir að Breiðablik hafi viljað meiri peninga og að Coventry muni ekki beygja sig fyrir neinum.


Staðreyndin er sú að ekkert formlegt tilboð barst nokkurn tímann frá Coventry í Jóhann Berg Guðmundsson. Hins vegar hringdi formaður Coventry City FC og bauð Knattspyrnudeild Breiðabliks fjárupphæð sem nemur um tíunda hluta af uppeldisbótum leikmannsins, sem er vitaskuld smánarlegt boð. Það er því undarleg tilraun hjá Coleman að reyna að gera Knattspyrnudeild Breiðabliks að vonda aðilanum í þessu máli, en það mun ekki bera árangur.

Knattspyrnudeild Breiðabliks lýsir furðu sinni á öllum vinnubrögðum Coventry City FC í þessu máli og mun upplýsa um þau vinnubrögð síðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert