Milljónir manna misstu af sigurmarki Everton

Dan Gosling fagnar sigurmarkinu gegn Liverpool í gær.
Dan Gosling fagnar sigurmarkinu gegn Liverpool í gær. Reuters

Forráðamenn bresku sjónvarpsstöðvarinnar ITV hafa beðist afsökunar á því að milljónir manna misstu af sigurmarki Everton gegn Liverpool í leik liðanna í ensku bikarkeppninni á Goodison Park í gær. Hinn 19 ára gamli Dan Gosling skoraði sigurmarkið á 118. mínútu en þá var í ,,loftinu" auglýsing frá Volkswagen.

Þegar skipt var út á völlinn eftir auglýsingahléið voru liðsmenn Everton að fagna markinu og skömmu síðar flautaði Alan Wiley til leiksloka.

,,Ef þú misstir af markinu þá biðjumst við afsökunar. Það var af tæknilegum mistökum sem þetta gerðist,“ sagði Steve Ryder sem lýsti leiknum á ITV í gærkvöld.

Michael Grade stjórnarformaður ITV segir að unnið sé að því að rannsaka hvað fór úrskeiðis.

,,Við höfum margra ára reynslu í að eiga við koma inn auglýsingum í hléum og þegar leikir fara í framlengingu og í vítaspyrnukeppni. Við munum að sjálfsögðu kanna til hlítar hvað átti sér stað og bíðum eftir upplýsingum frá okkar tækniliði,“ segir Grade.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert