Hermann vinsæll hjá stuðningsmönnum Portsmouth

Hermann Hreiðarsson hefur átt góðu gengi að fagna með Portsmouth.
Hermann Hreiðarsson hefur átt góðu gengi að fagna með Portsmouth. Reuters

Íslenski landsliðsfyrirliðinn Hermann Hreiðarsson hefur heldur betur hrifið stuðningsmenn Portsmouth á nýjan leik með frammistöðu sinni í undanförnum leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Eftir bekkjarsetu lengst af í vetur skoraði Hermann í leikjum gegn Liverpool og Manchester City og átti stærstan þátt í jöfnunarmarki liðsins gegn Stoke City í dag.

Hermann er umræðuefni á bloggi stuðningsmanna Portsmouth á knattspyrnuvef BBC í kvöld og þar má m.a. lesa eftirfarandi ummæli:

„Á bekknum hálft tímabilið og nú þrjú mörk í þremur leikjum."

„Vel gert Hermann, skrifarðu ekki undir samning?"

„Hermann er hetjan. Ætlar að halda okkur í deildinni einn síns liðs. Semjið við hann NÚNA. Ef Kanu verðskuldaði nýjan samning í fyrra, verðskuldar Hermann slíkt núna."

"Við eigum hiklaust að semja við hann aftur og halda hátíðlegan Hermannsdag!"

„Hver þarf einn besta sóknarmann deildarinnar, Defoe, þegar við höfum Hermann? Toppmaður, sammála þessu með nýjan samning, hvað er að því að bjóða honum eitt ár enn? Það er ekki eins og við eigum betri  vinstri bakvörð í félaginu!"

„Hermann er þegar frábær vinstri bakvörður og nú er hann á góðri leið með að verða markakóngurinn okkar! Það besta sem frá Íslandi hefur komið síðan við fengum 5 punda humarinn."

„Þetta var víst skráð sem sjálfsmark en Hermanator er hetja og mér líður alltaf betur þegar hann er vinstri bakvörður. Verðskuldar svo sannarlega a.m.k. eitt ár enn."

Spjallþráður BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert