Dalglish tjáir sig um Hillsborough-slysið

Kenny Dalglish varð vitni að hinu hörmulega Hillsborough slysi árið …
Kenny Dalglish varð vitni að hinu hörmulega Hillsborough slysi árið 1989. Hann hefur nú í fyrsta skipti opinberlega tjáð sig um slysið. Reuters

Kenny Dalglish, fyrrum leikmaður og þjálfari Liverpool liðsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, hefur í fyrsta skipti tjáð sig um Hillsborough-slysið, þar sem 96 Liverpool aðdáendur fórust árið 1989, en Dalglish var þá þjálfari liðsins.

Dalglish hefur til þessa aldrei viljað tala um slysið, sem dregur nafn sitt af heimavelli Sheffield Wednesday, en lið Liverpool og Nottingham Forest áttust þar við í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar, þann 15. apríl 1989. Mikill troðningur áhangenda, sökum slakrar stjórnunar lögreglu, varð til þess að 96 létu lífið, allt aðdáendur Liverpool, en slysið er það mannskæðasta í sögu ensku knattspyrnunnar og varð til þess að öllum leikvöngum í Bretlandi var breytt í kjölfarið. (Engin stæði voru leyfð, aðeins sæti.)

Dalglish tjáir sig hinsvegar um slysið í heimildarmynd um atburðinn, Hillsborough Remembered, sem sýnd verður á The History Channel í tilefni af því að 20 ár eru liðin frá atburðinum.

„Það hefði verið auðveldast í heimi að fresta leiknum örlítið. Það hefði ekki verið neitt vandamál. Ef lögreglan hefði aðeins talað við knattspyrnusambandið, þá hefði það bara fengið jákvæð viðbrögð frá mér og Brian Clough (þjálfari Nottingham Forest á þeim tíma). Þetta er nokkuð sem allir harma, en þetta er líka nokkuð sem enginn ætti að gleyma. Við sáum til þess að fulltrúi Liverpool liðsins var við hverja einustu jarðarför og ég held að fjölskyldur fórnarlambanna hafi metið það mikils,“ segir Dalglish í myndinni.

Leikurinn hófst á réttum tíma þrátt fyrir troðninginn en var flautaður af eftir sex og hálfa mínútu, þegar allt var um seinan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert