Tévez sagður vilja fara til Liverpool

Hvert fer Carloz Tévez í sumar?
Hvert fer Carloz Tévez í sumar? Reuters

Ensku blöðin greina frá því í morgun að Liverpool hafi sett sig í samband við Kia Joorabichian, sem hefur umráð yfir knattspyrnumanninum Carlos Tévez, með það fyrir augum að fá Tévez til liðs við sig. Argentínumaðurinn er sagður tilbúinn að fara til Liverpool en hann er í láni hjá Manchester United.

Tévez segist ekki sjá annað en að krafta hans verði ekki lengur óskað hjá Manchester United eftir tímabilið þar sem honum hafi ekki verið boðinn samningur við liðið. Hann lék allan leikinn með United gegn Manchester City í fyrrdag og átti frábæran leik og stuðningsmenn ensku meistaranna hafa biðlað til forráðamanna liðsins um að gera samning við leikmanninn.

Mörg lið virðast ætla að blanda sér í baráttuna um að fá Tévez til liðs við sig. Áður hefur komið fram að Real Madrid er með augastað á honum en fram kemur í ensku blöðunum í morgun að AC Milan sé spennt fyrir Argentínumanninum sem og Manchester City, Chelsea, Tottenham og Everton.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert