Bandaríkjamaður kaupir Sunderland

Stuðningsmenn Sunderland eru eflaust margir ánægðir með bandaríska skaffarann mitt …
Stuðningsmenn Sunderland eru eflaust margir ánægðir með bandaríska skaffarann mitt í kreppunni. Reuters

Bandaríski auðkýfingurinn Ellis Short keypti í dag knattspyrnufélagið Sunderland. Var hann meirihlutaeigandi fyrir, með 30% eignarhlut, en hann keypti hin 70% í dag. Er hann þar með fjórði Bandaríkjamaðurinn sem fer með ráðandi hlut í ensku knattspyrnufélagi, en hin eru Manchester United, Liverpool og Aston Villa.

Niall Quinn, sem gegnt hefur stjórnarformennsku í félaginu, mun gera það áfram, en það var hann sem árið 2006 kom á fót hópi auðugra manna, Drumaville-hópnum, til að fjárfesta í félaginu fyrir 18, 4 milljónir dollara, en þar var Short á meðal.

„Þetta eru frábærar fréttir fyrir félagið. Ellis hefur þegar sýnt ótrúlega hollustu við félagið, en þessar fréttir í dag opnar dyrnar að nýjum tímum fyrir Sunderland,“ sagði Quinn.

Sunderland tókst ekki að standa undir væntingum í vetur og endaði í 16 sæti af 20. Knattspyrnustjórinn Roy Keane hætti með liðið í desember og var Ricky Sbragia falið að stjórna liðinu út leiktíðina.

Sbragia sagði síðan upp störfum nú þegar deildakeppninni lauk og er Steve Bruce, stjóri Wigan, sterklega orðaður við stjórastöðuna hjá Sunderland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert