Ferguson er hættur að versla

Alex Ferguson ætlar að treysta á þann hóp sem hann …
Alex Ferguson ætlar að treysta á þann hóp sem hann er kominn með. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segist ekki ætla að ná í fleiri nýja leikmenn í sumar, og einu gildi hvaða menn séu orðaðir við félagið þessa dagana. Hann ætli ekki að taka þátt í því að kaupa leikmenn á uppsprengdu verði.

Ferguson hefur aðeins keypt Antonio Valencia frá Wigan og Gabriel Obertan frá Bordeaux, auk þess sem hann fékk Michael Owen frá Newcastle án greiðslu. Hann seldi hinsvegar Cristiano Ronaldo til Real Madrid fyrir 80 milljónir punda og Carlos Tévez er einnig á förum frá félaginu, væntanlega til Manchester City.

„Við erum hættir svo þið skulið gleyma öllum þessum fregnum um hverja við eigum að vera að kaupa. Kaupverð leikmanna er rokið uppúr öllu valdi, hér í Englandi og alls staðar í Evrópu. Af þeim leikmannakaupum sem hafa átt sér stað í sumur eru varla nokkur á réttlætanlegu verði, en einhvern veginn hefur þessi markaður fuðrað upp í sumar. Þetta er mjög óvenjulegur tími og erfitt að fá rétt mat á leikmenn fyrir vikið," sagði Ferguson við Sky Sports.

Fjölmargar stjörnur hafa verið orðaðar við Manchester United síðan Ronaldo var seldur en Ferguson segist hafa nægilega sterkan hóp til ða vera í fremstu röð á öllum vígstöðvum í vetur.

„Manchester United hefur alltaf þurft að greiða aðeins hærra verð en aðrir  fyrir leikmenn. En við erum ekki tilbúnir til þess núna, því menn verða að átta sig á því að við erum með marga stórgóða unga leikmenn í okkar röðum. Hópurinn er mjög sterkur og það þarf ekki að hlaupa upp til handa og fóta þó Cristiano sé farinn. Við gerðum vel að halda honum hjá okkur í sex ár, nú var rétta stundin fyrir hann að breyta til og við stóðum ekki í vegi hans. Við förum ekki á taugum þó einn leikmaður fari, við erum með mjög góðan hóp og sterka unga leikmenn í öllum stöðum," sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert