Ferguson: Owen verður að vera þolinmóður

Michael Owen í leik með Manchester United.
Michael Owen í leik með Manchester United. Reuters

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United segir að framherjinn Michael Owen sé algjörlega inni í myndinni hjá sér en hann verði að vera þolinmóður.

Owen hefur aðeins byrjaði inná í einum deildarleik Englandsmeistaranna og er fyrir aftan Wayne Rooney og Dimitar Berbatov í goggunarröðinni en Owen gekk óvænt í raðir United frá Newcastle í sumar.

,,Michael hefur ekki verið í liðinu og ég hef útskýrt málið fyrir honum. Tímabilið er varla byrjað' en vegna landsleikjatarnar höfum við ekki spilað á laugardögum og miðvikudögum. Svo Michael hefur þurft að bíða þar sem við erum að reyna láta Wayne Rooney og Dimitar Berbatov ná betur saman,“ sagði Ferguson við fréttamenn í gær.

Ferguson segist mjög ánægður með hvernig Rooney hefur byrjað leiktíðina og hann segist vilja fá 20 mörk frá enska landsliðsmanninum á tímabilinu.

,,Wayne hefur byrjað tímabilið með krafti og hefur skorað grimmt. Við þurfum að hafa nokkra menn í liðinu sem eru færir um að skora 20 mörk á leiktíðinni. Wayne hefur alltaf viljað skora mörk en hann þarf bara vera stöðugari í þeim efnum. Hann á það til að skora mörk í bunkum en hafa síðan hægt um sig næstu vikurnar. Við þurfum að vera með menn sem skora að jafnaði líkt og Andy Cole og Ruud van Nistelrooy gerðu þegar þeir léku með okkur.“




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert