Arabíski prinsinn vill ekki skuldir Liverpool

Eigendamál Liverpool eru í óvissu þessa dagana.
Eigendamál Liverpool eru í óvissu þessa dagana. Reuters

Sádi-arabíski prinsinn Faisal, sem hefur lýst yfir miklum áhuga á að kaupa enska knattspyrnufélagið Liverpool, hefur gert núverandi eigendum ljóst að skuldastaða þess verði að vera í viðunandi horfi áður en hann gerist eigandi. Hann ætli ekki að mæta á svæðið til að hreinsa upp eftir aðra.

Prinsinn hefur átt viðræður við annan eigendanna,  George Gillett, um að kaupa hans hlut og er sagður hafa líka augastað á hinum helmingnum sem er í eigu Tom Hicks.

Barry Didato, ráðgjafi Faisals, sagði við Sky Sports í dag að prinsinn setti ýmis skilyrði fyrir aðkomu sinni að félaginu. „Hlutur hans getur enn verið frá núlli og uppí 100 prósent. Skuldirnar verða að vera í góðum skilum áður en Faisal prins gerir eitthvað og þær eru ansi háar sem stendur. Það er ekki hægt að horfa til hans sem einhvers sem mætir til að hreinsa upp skuldirnar. Gillett verður að sjá um það. Hann getur ekki verið lausnin á skuldastöðunni eða á samskiptavandamálum núverandi eigenda," sagði Didato.

Gillett og Hicks gáfu út yfirlýsingu í síðustu viku þar sem sagði að viðræður við Faisal prins væru á frumstigi, og þeir sögðu jafnframt að fjárhagsstaða félagsins væri góð, betri en hjá Manchester United, Chelsea og Arsenal.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert