Arsenal vann öruggan sigur á Tottenham

Fabregas fagnar glæsilegu marki sínu í dag.
Fabregas fagnar glæsilegu marki sínu í dag. Reuters

Lundúnaliðin Arsenal og Tottenham áttust við í miklum nágrannaslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Arsenal vann öruggan 3:0 sigur og komst því upp að hlið Manchester United í 2. sæti deildarinnar. Tottenham er eftir sem áður í 4. sæti en það gæti breyst síðar í dag. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Robin van Persie gerði tvö marka Arsenal og Cesc Fabregas eitt en það var sérlega glæsilegt.

1:0 43. mín. Robin van Persie kom Arsenal yfir með skoti rétt utan nærstangarinnar eftir fyrirgjöf Bacary Sagna frá hægri.

2:0 44. mín. Cesc Fabregas bætti öðru marki við strax eftir að Tottenham hafði tekið miðju. Hann náði boltanum af Wilson Palacios rétt utan miðjuhringsins og lék frábærlega í gegnum vörn Tottenham áður en hann skoraði með góðu skoti. Frábært einstaklingsframtak og sannarlega eitt af laglegri mörkum leiktíðarinnar.

3:0 60. mín. Robin van Persie bætti við sínu öðru marki og kom Arsenal í 3:0 með athyglisverðu marki. Bacary Sagna fékk boltann á hægri kantinum nærri endamörkum en hægði á sér þegar hann sá aðstoðardómarann veifa flaggi sínu eftir brot á leikmanni Arsenal. Mark Clattenburg dómari kaus hins vegar að láta leikinn halda áfram og þegar Sagna áttaði sig á því sendi hann boltann fyrir markið þar sem van Persie skoraði þó Ledley King væri nálægt því að ná til boltans.

Bein lýsing.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert