Mikill niðurskurður hjá West Ham

David Gold og David Sullivan freista þess að taka til …
David Gold og David Sullivan freista þess að taka til í herbúðum West Ham. Reuters

David Sullivan, annar aðaleigenda enska knattspyrnufélagsins West Ham, segir að mikill niðurskurður á launum og starfsfólki sé óhjákvæmilegur næsta sumar. Félagið skuldar rúmlega 100 milljónir punda.

Sullivan sagði við götublaðið The Sun í dag að allir í félaginu yrðu beðnir um að taka á sig launalækkun að tímabilinu loknu og talað er um allt að 25 prósent. Margir leikmenn liðsins eru mjög launaháir, eins og Scott Parker, Matthew Upson og Kieron Dyer, sem eru sagðir fá 60-65 þúsund pund hver í laun á viku.

„Við höfum þegar þurft að leggja niður 10-15 störf innan félagsins. Það er í algjörri óreiðu og það þurfa allir að leggjast á árarnar," sagði Sullivan.

Um 15 starfsmenn félagsins hafa þegar boðist til að taka á sig launalækkun og þá segir blaðið að bílstjóri, þrekþjálfari og annar læknir liðsins séu á meðal þeirra sem sagt verði upp störfum, og þá sé reiknað með því að tæknilegi ráðgjafinn Gianluca Nani verði að leita sér að öðru starfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert