Capello biðst afsökunar á HM

Árangur enska landsliðsins á HM undir stjórn Fabio Capello stóð …
Árangur enska landsliðsins á HM undir stjórn Fabio Capello stóð ekki undir væntingum. Reuters

Fabio Capello landsliðsþjálfari Englands í knattspyrnu segist allt eins hafa búist við því að verða rekinn eftir slaka frammistöðu liðsins a heimsmeistaramótinu í Suður-Afríku í sumar.

England féll úr keppni í 16-liða úrslitum eftir 4:1 tap fyrir erkifjendunum frá Þýskalandi.

„Ég vil biðja alla stuðningsmennina sem fylgdu okkur til Suður-Afríku afsökunar. Ég veit að það hefur kostað þá mikinn pening og tíma að fylgja okkur eftir,“ sagði Capello sem er hins vegar farinn að horfa fram á veginn til næstu keppni, sem er EM 2012 en undankeppnin hefst í næsta mánuði.

„Ég vildi halda áfram eftir mótið en ef enska knattspyrnusambandið hefði rekið mig þá hefði ég sýnt því fullan skilning. Ég hugsaði mikið um stöðuna en ég er baráttuhundur og hef aldrei kosið að hætta á mínum ferli. Ég horfi alltaf til framtíðar og núna vil ég horfa fram á veginn og koma liðinu í úrslitakeppni Evrópumótsins sem ég tel afar mikilvægt,“ sagði Capello.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka