Bob Bradley líklegasti arftaki O'Neill

Bob Bradley, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna.
Bob Bradley, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna. Reuters

Bob Bradley, sem náð hefur fínum árangri sem landsliðsþjálfari Bandaríkjanna, er nú talinn líklegastur til að taka við sem knattspyrnustjóri Aston Villa eftir að Martin O'Neill hætti í gær. Bradley segist hafa mikinn áhuga á að þjálfa í Evrópu.

„Ég hef ítrekað sagt það að ég er spenntur yfir nýjum áskorunum. Það yrði svo sannarlega afar ánægjulegt að fá að þjálfa í Evrópu á einhverjum tímapunkti,“ sagði Bradley.

„Að sama skapi lít ég á það sem áskorun að hefja vinnu við að ná árangri á næsta heimsmeistaramóti,“ bætti Bradley við, greinilega opinn fyrir ýmsu.

Hann var orðaður við stjórastöðuna hjá Fulham í sumar en ræddi aldrei formlega við félagið sjálfur.

„Fólk á mínum vegum talaði við Fulham en ég ræddi aldrei sjálfur við neinn hjá félaginu,“ sagði Bradley sem hafði hugsað sér að ræða framtíð sína hjá bandaríska landsliðinu eftir æfingaleik gegn Brasilíu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert