Wenger: Helmingurinn vildi fara

Arsene Wenger hefur haft um margt að hugsa í haust.
Arsene Wenger hefur haft um margt að hugsa í haust. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að erfiða byrjun liðsins á keppnistímabilinu megi rekja til þess að helmingur leikmannanna hefðu viljað fara frá félaginu í sumar.

Tveir lykilmenn, Cesc Fabregas og Samir Nasri, hurfu á braut til Barcelona og Manchester City og Wenger segir að ástandið hafi verið erfitt, ekki síst vegna þess að til viðbótar meiddist Jack Wilshere og er lengi frá keppni.

„Sumarið var afskaplega erfitt vegna þess að helmingur leikmannanna vildi fara. Við vorum að undirbúa tímabilið en vissum ekki hverjir myndu fara eða koma og leikmennirnir spurðu sjálfa sig hvað gengi á í félaginu. Þetta var einstaklega erfitt. Það sem bjargaði okkur er hve gífurlega traust og sameinað þetta félag er. Sum önnur hefðu hreinlega hrunið við þessar aðstæður," sagði Wenger í viðtali við frönsku útvarpsstöðina RTL.

„Fólk gleymir því að við misstum þrjá lykilmenn, vegna þess að við misstum líka Wilshere. Hann, Fabregas og Nasri báru uppi miðjuna hjá okkur í fyrra. Við höfum þurft að endurskipuleggja hana algjörlega því Wilshere spilar ekki aftur fyrr en í janúar. En við erum samt vonsviknir yfir þessari byrjun á tímabilinu, væntingarnar til okkar eru mun meiri en þetta, en vandamálið er að það tekur tíma að klifra upp töfluna. Það er ekki svo langt í fjórða sætið en við erum of langt á eftir tveimur efstu liðum," sagði Wenger.

Hann viðurkenndi að það væri alfarið vegna launanna sem leikmenn hefðu viljað yfirgefa Arsenal. „Málið er ekki að fara til að vinna titla. Ef menn bera saman það sem Manchester City og Arsenal hafa unnið, þá er ljóst að menn fara ekki til Manchester City til að vinna titla. Menn fara til Manchester City vegna þess að þar eru greidd mun hærri laun en hjá Arsenal. Þeir eru mikið veldi vegna gífurlegs fjármagns sem þeir hafa yfir að ráða svo staða þeirra kemur ekki á óvart," sagði Wenger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka