Dalglish: Dómarar með Bellamy í einelti?

Craig Bellamy er gjarn á að ræða málin við mótherja …
Craig Bellamy er gjarn á að ræða málin við mótherja sína, tæpitungulaust. Reuters

Kenny Dalglish, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að halda mætti að dómarar í ensku úrvalsdeildinni hefðu sameinast um að leggja Craig Bellamy, framherja liðsins, í einelti. Hann hefði undanfarið fengið fjögur gul spjöld sem öll hefðu verið gefin fyrir litlar eða engar sakir.

„Eitt spjaldið kom gegn Fulham þegar Clint Dempsey rak höfuðið beint í andlitið á Craig. Litli maðurinn fékk spjald fyrir það. Í leiknum við Wigan spurðum við dómarann fyrir hvað hann hefði fengið spjald og svarið var: "Craig veit það." En Craig hafði ekki hugmynd. Síðan var það gegn QPR þegar Joey Barton veittist að honum og Craig fékk spjald.  Ég veit ekki afhverju hann fær þessi spjöld en ég hef ekki séð ástæður fyrir neinu þeirra," sagði Dalglish við The Guardian.

"Þegar við mættum Wigan braut Antolín Alcaraz fimm sinnum af sér en fékk aldrei spjald. Ef hann fær fimm tækifæri, hvað þá með aðra? Gary Caldwell hjá Wigan fékk spjald fyrir nánast sitt fyrsta brot en síðan ekkert fyrir að handleika boltann. Við þurfum að fara að fá reglurnar á hreint. Þær eru til staðar en eiga að gilda eins fyrir alla, ekki bara fyrir suma," sagði Dalglish og kvaðst ekki ætla að biðja Bellamy um að breyta sínum leikstíl vegna spjaldanna.

„Hann er nógu reyndur til að vita hvernig hann á að haga sér. Nú hefur hann fengið fjögur gul spjöld og verðskuldar ekkert þeirra. Ég trúi því varla að það sé í gangi einelti á hendur honum, ég myndi vilja geta sagt að hann hefði verið óheppinn fjórum sinnum.  Þá verður hann varla óheppinn í fimmta sinn? En Craig spilar þegar hann þarf að spila. Við verðum bara að taka áhættuna á því. Hann er það reyndur að hann á að komast í gegnum það. En það er ansi mikill stöðugleiki að fá fjögur spjöld í röð!" sagði Dalglish.

Liverpool tekur á móti botnliði Blackburn Rovers á morgun, en það er einmitt liðið sem Dalglish gerði að Englandsmeisturum árið 1995. „Það eru mikil vonbrigði á þeim bænum og maður hefur samúð með öllum liðum sem lenda í þessari stöðu. Það er sárt að sjá lið sem maður hefur stjórnað og liðið vel hjá vera í svona barningi en Blackburn nýtur engar samúðar þegar í leikinn er komið. Við reynum að vera eins faglegir og óvægnir og við getum, og þakkað forsjóninni fyrir að það erum ekki við sem erum í þeirra stöðu," sagði Kenny Dalglish.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert