Rooney: Ekki búinn að afskrifa Arsenal

Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Reuters

Wayne Rooney framherji Manchester United segist ekki vera búinn að afskrifa Arsenal í baráttunni um titilinn en Rooney og félagar hans í Manchester United sækja Arsenal heim í sannköllum stórleik í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Rooney á góðar minningar frá leikjunum við Arsenal. Hann skoraði þrennu í 8:2 sigri United gegn Lundúnaliðinu á Old Trafford í ágúst og hefur skorað 10 mörk í 20 leikjum á móti Arsenal.

„Ég myndi ekki afskrifa Arsenal. Liðið er fært um að komast á mikið skrið og sama má segja um Chelsea. Ég held samt að við, Manchester City og Tottenham séum sigurstranglegust en Arsenal og Chelsea geta enn haft mikið um þetta að segja,“ segir Rooney, sem er ekki búinn að gleyma fyrri leiknum á móti Arsenal.

„Við vitum að þetta var frábær dagur hjá okkur en vondur fyrir Arsenal. Að vinna Arsenal 8:2, með þá leikmenn sem þeir eru með, sögu félagsins og stjórann sem þeir eru með, voru frábær úrslit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert