Balotelli átti ekki að vera inná

Mario Balotelli fylgist með þegar Scott Parker fær aðhlynningu eftir …
Mario Balotelli fylgist með þegar Scott Parker fær aðhlynningu eftir atvikið. Reuters

Harry Redknapp knattspyrnustjóri Tottenham var ævareiður eftir ósigurinn gegn Manchester City, 3:2, í ensku úrvalsdeildinni í dag og sagði að Mario Balotelli, sem skoraði sigurmarkið í uppbótartíma, hefði alls ekki átt að vera inni á vellinum á þeirri stundu.

Balotelli kom inná sem varamaður og skoraði markið úr vítaspyrnu sem hann krækti í sjálfur. Nokkru áður lá Scott Parker miðjumaður Tottenham á vellinum, blóðugur á höfði eftir viðskipti við Balotelli.

„Eftir að hafa skoðað atvikið tel ég að hann hefði átt að fá rauða spjaldið. Í fyrra skiptið sem hann snertir Parker gæti verið um óviljaverk að ræða en í það seinna rekur hann hælinn í hann, beint í höfuðið,“ sagði Redknapp við Sky Sports.

„Þetta er ekki í  fyrsta skipti sem hann gerir svona lagað og áreiðanlega ekki í það síðasta. Ég er síðastur manna til að heimta að mótherjar eigi að vera reknir af velli, og hvað þeir eiga að gera eða hvað þeir eiga ekki að gera. En þetta er svo augljóst. Hann bregst stundum svona við mótlæti. Scott er með skurð á höfðinu eftir hann.

Stjórinn þeirra þarf að taka á þessu. Ég hef mínar skoðanir en mín skoðun er sú að mér finnst að menn eigi ekki að sparka í höfuð mótherjanna á fótboltavellinum, og held að það sé ekki rangt af mér að láta þá skoðun í ljós. Hvers vegna í ósköpunum mönnum dettur í hug að sparka með hælnum í andlit andstæðinganna þegar þeir liggja á vellinum er ofvaxið mínum skilningi. Það er ekki fallega gert,“ sagði Redknapp.

David Platt, aðstoðarstjóri City, mætti á fréttamannafundinn í stað Robertos Mancinis og kvaðst ekki hafa séð atvikið. „Við getum eiginlega ekkert sagt fyrr en við höfum skoðað þetta. En við vitum að mismunandi sjónarhorn í sjónvarpinu geta sýnt hlutina á mismunandi hátt,“ sagði Platt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert