Wenger: Við vorum lélegir

Grant Holt skorar sigurmark Norwich gegn Arsenal.
Grant Holt skorar sigurmark Norwich gegn Arsenal. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, dró enga dul á það eftir óvæntan ósigur liðsins gegn Norwich í ensku úrvalsdeildinni síðdegis í gær að frammistaða hans manna hefði verið léleg.

Grant Holt skoraði sigurmarkið strax á 20. mínútu og Arsenal komst lítið áleiðis eftir það.

„Við getum engum um þetta kennt nema okkur sjálfum og við gerðum fjölda mistaka í þessum leik. Við verðum að hrista þennan leik af okkur, átta okkur á því að þetta var engan veginn nógu gott, og sýna aðra og betri frammistöðu á miðvikudaginn," sagði Wenger á vef Arsenal en lið hans mætir næst Schalke í Meistaradeild Evrópu.

„Hugarfar liðsins hefur verið frábært til þessa en núna var þetta ekki í þeim gæðaflokki sem liðið hefur sýnt fram að þessu. Nú vorum við í fyrsta skipti á tímabilinu nokkuð frá okkar besta. Og við vorum langt frá því að þessu sinni. Norwich lék sterkan varnarleik, af einbeitingu og krafti. Við vorum mikið með boltann en gerðum ekki margt við hann. Yfirburðir okkar á því sviði voru blekkjandi og frammistaða okkar olli miklum vonbrigðum," sagði Arsene Wenger en lið hans situr nú í níunda sæti deildarinnar, tíu stigum á eftir toppliði Chelsea.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert