Tæp milljón túrista á leiki í enska boltanum

Old Trafford trekkir að flesta ferðamenn.
Old Trafford trekkir að flesta ferðamenn. AFP

Alls komu rúmlega 900.000 erlendir gestir til Englands á síðasta ári og horfðu á leiki í enska boltanum og þeir eyddu þar samtals 706 milljónum punda, jafnvirði rúmlega 140 milljarða króna.

Frá þessu er greint í fréttatilkynningu VisitBritain. Þar segir meðal annars að Íslendingar séu á meðal þeirra þjóða sem líklegastar eru til að ætla á fótboltaleik séu þær á annað borð á ferð um Bretland.

Fyrir utan Breta sjálfa eru það helstu nágrannar þeirra, Írar, sem eru fjölmennasta þjóðin sem sækir leiki í enska boltanum, eða um 174.000 talsins. Norðmenn koma næstir, með 80.000 af hinum rúmlega 900.000 erlendu gestum. Því næst koma Bandaríkjamenn, Spánverjar og Þjóðverjar.

Algengast var að erlendir gestir færu á leiki á Old Trafford, heimavelli Manchester United. Skammt þar á eftir fylgdi Anfield, heimavöllur Liverpool, en bæði þessi lið eiga dygga stuðningsmannahópa hér á landi.

Fótboltinn gerir eins og áður segir mikið fyrir ferðamannaiðnaðinn í Bretlandi, ekki síst vegna þess að hann skilar fjölda ferðamanna á rólegri tímum ársins, svo sem á milli janúar og mars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert