Pulis ósáttur við leikmenn Arsenal

Leikmenn Arsenal brugðust ókvæða við þegar þeir héldu að dæma …
Leikmenn Arsenal brugðust ókvæða við þegar þeir héldu að dæma ætti mark Lukas Podolski af. AFP

Tony Pulis knattspyrnustjóri Stoke var ósáttur við að leikmenn Arsenal skyldu hópast að Chris Foy dómara og aðstoðardómara hans í leik liðanna í dag.

Aðstoðardómarinn flaggaði rangstöðu þegar Lukas Podolski skoraði eina mark leiksins úr aukaspyrnu, en skot hans hafði viðkomu í varnarmanni. Foy ákvað að lokum að dæma mark, sem var rétt mat því að þó að Theo Walcott hafi verið fyrir innan vörn Fulham þegar Podolski tók skotið hafði Walcott alls engin áhrif. Pulis var engu að síður ósáttur við að Arsenal-menn skyldu þjarma að dómurunum á meðan að þeir ákváðu sig.

„Það sem olli mér vonbrigðum var að leikmenn Arsenal skyldu hópast að línuverðinum. Það er eitthvað sem menn eiga ekki að gera. Ef hann dæmdi rétt þá er það svoleiðis og menn verða bara að taka því,“ sagði Pulis.

„Ég hef ekki hugmynd um á hvað menn dæma rangstöðu í dag. En menn eiga ekki að hópast svona að línuverðinum eins og Arsenal-menn gerðu, yfir fimm leikmenn saman. Dómarinn tók ákvörðun eftir það,“ sagði Pulis sem var þó sáttur við sína menn.

„Við gerðum það sem við ætluðum okkur með því að pirra Arsenal-menn. Ef maður ber þessi félög saman þá sjá allir að þetta er ekki jöfn keppni en þeir sköpuðu lítið af færum,“ sagði Pulis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka