Man. Utd reiðubúið að selja Rooney

Ryan Giggs var valinn fram yfir Wayne Rooney í leiknum …
Ryan Giggs var valinn fram yfir Wayne Rooney í leiknum mikilvæga við Real Madrid. AFP

Eftir níu ára dvöl hjá Manchester United og tæplega 200 skoruð mörk fyrir liðið gæti framherjinn Wayne Rooney verið á förum frá félaginu í sumar. Fjöldi enskra miðla greinir frá því að félagið sé reiðubúið að selja kappann.

Rooney var ekki í byrjunarliði United í stærsta leik tímabilsins þegar það mætti Real Madrid í seinni leik liðanna í Meistaradeildinni á þriðjudagskvöld.

Í frétt Times er Rooney sagður hafa sýnt yfirvegun þegar Sir Alex Ferguson tilkynnti byrjunarliðið, en svo misst stjórn á sér þegar stjórinn var úr augsýn. Þar segir að United sé opið fyrir því að selja kappann og að Paris Saint-Germain sé áhugasamt.

United greiddi Everton 25,6 milljónir punda fyrir Rooney sumarið 2004 og ljóst að hann mun kosta skildinginn fari hann í sumar. Í frétt ESPN um málið segir að hann muni kosta um það bil 35 milljónir punda, en Daily Mail segir að Ferguson gæti sætt sig við rúmar 20 milljónir punda.

Rooney er orðaður við Manchester City og Chelsea en í frétt Guardian segir að Englandsmeistarar City hafi engan áhuga á að kaupa enska landsliðsmanninn. Hann er 27 ára gamall og sagður þéna um 250.000 pund á viku hjá United. Núgildandi samningur hans við félagið rennur út 2015.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert