Malovic hjálpar ÍBV og fer svo heim

Nemanja Malovic hefur spilað afar vel fyrir ÍBV í vetur.
Nemanja Malovic hefur spilað afar vel fyrir ÍBV í vetur. mbl.is/Júlíus G. Ingason

Nemanja Malovic, serbnesk skytta sem spilar fyrir ÍBV í 1. deildinni í handbolta, fær að hjálpa liði sínu að tryggja sér sæti í N1-deildinni þrátt fyrir að dvelja á Íslandi án atvinnu- og dvalarleyfis.

Vísir greinir frá því í dag að þrátt fyrir að Malovic sé ekki með tilskilin leyfi til að búa og starfa á Íslandi er hann með leikheimild hjá HSÍ og gerir sambandið ekki kröfur um að leikmenn frá löndum utan EES-svæðissins séu með atvinnu- og dvalarleyfi.

Malovic fékk frest frá útlendingastofnun til að yfirgefa Ísland en hann fer af landi brott á þriðjudagsmorgun. Það gerir honum kleift að spila gríðarlega mikilvægan leik gegn Stjörnunni á mánudagskvöldið en jafntefli þar tryggir ÍBV sæti í efstu deild að ári.

Malovic, sem spilaði með Haukum á síðasta tímabili, er langmarkahæsti leikmaður ÍBV leiktíðinni með 131 mark.

Víkingar, sem hafa verið í baráttu við ÍBV um efsta sætið undanfarnar vikur, íhuga að kæra Eyjamenn fyrir almennu dómskerfi vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert