Liverpool-menn æfir út í Suárez

Luis Suárez er þessa dagana með úrúgvæska landsliðinu í Brasilíu …
Luis Suárez er þessa dagana með úrúgvæska landsliðinu í Brasilíu þar sem liðið leikur um bronsverðlaun í Álfukeppninni á sunnudag. AFP

Forráðamenn Liverpool hyggjast ræða sem fyrst við framherjann Luis Suárez til að meta trúverðugleika fréttar Marca um að leikmaðurinn hafi þegar hafið viðræður við Real Madrid um kaup og kjör, þrátt fyrir að Real hafi ekki einu sinni lagt fram tilboð í kappann, en slíkt væri samningsbrot af hálfu Úrúgvæjans.

Þetta kemur fram í frétt Daily Telegraph í kvöld. Þar segir að forsvarsmenn Liverpool séu æfir vegna framgöngu Suárez. Frétt Marca verði að taka alvarlega enda sé vitað að blaðið eigi í góðu sambandi við Real Madrid.

Suárez á þrjú ár eftir af samningi sínum við Liverpool en virðist ólmur vilja fara frá félaginu þó að ekki hafi hann lagt fram formlega beiðni um slíkt. Talið er að Liverpool vilji fá að minnsta kosti 40 milljónir punda fyrir sinn markahæsta mann á síðustu leiktíð, og helst halda honum áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert