Freddy Adu á leið til Englands?

Freddy Adu lék síðast með Bahia í Brasilíu.
Freddy Adu lék síðast með Bahia í Brasilíu. Ljósmynd/Bahia

Bandaríski framherjinn Freddy Adu er þessa dagana til reynslu hjá enska B-deildarliðinu Blackpool en hann er samningslaus eftir að hafa síðast leikið með Bahia í Brasilíu.

Adu, sem er 24 ára gamall, hlaut heimsfrægð þegar hann skrifaði undir atvinnumannasamning við DC United aðeins 14 ára gamall og var talinn geta orðið einn besti knattspyrnumaður heims. Hann skoraði fyrsta mark sitt í MLS-deildinni sama ár en hefur hins vegar ekki náð að standa undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar eftir það.

Adu hefur æft með Blackpool og mun leika æfingaleik fyrir luktum dyrum á morgun. Barry Ferguson er starfandi knattspyrnustjóri Blackpool og segir ekkert ákveðið um hvort samið verði við framherjann.

„Freddy er bara að æfa og ég ætla að skoða hann. Lengra er málið ekki komið. Hann hefur ekki spilað í tvo mánuði og er nýkominn frá Brasilíu. Við sjáum til hvernig honum gengur á æfingum,“ sagði Ferguson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert