Pearce tekur við Forest

Stuart Pearce með breska Ólympíuliðið á Ólympíuleikunum 2012.
Stuart Pearce með breska Ólympíuliðið á Ólympíuleikunum 2012. AFP

Stuart Pearce, fyrrverandi landsliðsþjálfari 21 árs landsliðs Englands í knattspyrnu, mun taka við sem stjóri Nottingham Forest í sumar. Þetta kemur fram á fréttavef BBC sem segir jafnframt að Pierce hafi áður hafnað starfinu af fjölskylduástæðum.

Nottingham vildi fá Pearce til starfa strax og stýra félaginu á lokasprettinum í ensku B-deildinni, en það lítur þó ekki út fyrir annað en að Pearce hefji störf fyrr en í sumar. Félagið hefur enn ekki ráðið stjóra síðan það rak Billy Davies í síðustu viku eftir 13 mánaða störf fyrir liðið. Gary Brazil hefur því stýrt liðinu tímabundið.

Pearce þekkir vel til hjá Nottingham Forest því hann lék fyrir félagið á árunum 1985-1997. Hann var svo knattspyrnustjóri til bráðabirgða í nokkra leiki veturinn 1996-1997 en hóf ekki þjálfun af neinu viti fyrr en ferli hans sem leikmanns lauk.

Hann var í þjálfaraliði Manchester City 2001-2005 og var svo knattspyrnustjóri félagsins 2005-2007. Þá var hann ráðinn landsliðsþjálfari 21 árs landsliðs Englands og stýrði því þar til síðasta sumar eða 2007-2013. Pearce var einnig aðstoðarlandsliðsþjálfari Englands 2008-2012 hjá Fabio Capello og stýrði liðinu til bráðabirgða eftir að Capello hætti 2012 og áður en Roy Hodgson tók við. Þá var Pearce einnig með ólympíulið Breta á Ólympíuleikunum í London 2012.

Neil Warnock hafði þegar hafnað því að taka við Nottingham Forest en nú virðist ljóst að Pearce hefji störf að leiktíð lokinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert