Suárez: Þung skref en rétti tíminn

Luis Suárez hefur kvatt Liverpool.
Luis Suárez hefur kvatt Liverpool. AFP

Úrúgvæski knattspyrnumaðurinn Luis Suárez segir að það hafi verið rétti tíminn fyrir sig núna að yfirgefa Liverpool og ganga til liðs við Barcelona, en áðan var tilkynnt að hann myndi ganga til liðs við Katalóníufélagið og semja við það til fimm ára.

Talið er að Barcelona greiði Liverpool í kringum 75 milljónir punda fyrir Suárez sem er líklega umtalaðasti knattspyrnumaður heims í kjölfarið á því að hann var á dögunum úrskurðaður í fjögurra mánaða keppnisbann af FIFA fyrir að bíta andstæðing í þriðja skipti á ferlinum.

„Það eru þung skref fyrir mig að yfirgefa Liverpool og takast á við nýjar áskoranir á Spáni. Ég og fjölskylda mín erum ástfangin af félaginu og borginni, en sérstaklega af fólkinu og hinum ótrúlegu stuðningsmönnum Liverpool. Þið hafið alltaf stutt mig og við fjölskyldan munum aldrei gleyma því og verðum ávallt stuðningsfólk Liverpool. Ég vona að þið skiljið öll ástæður mínar fyrir þessari ákvörðun," sagði Suárez í yfirlýsingu sem var birt fyrir stundu.

„Félagið gerði allt sem það gat til að fá mig til að vera áfram en það hefur verið draumur minn alla tíð að spila og búa á heimaslóðum fjölskyldu konunnar minar á Spáni og nú tel ég að rétti tíminn sé kominn til að fara þangað. Ég óska Rodgers og liðinu alls hins besta í framtíinni. Félagið er í frábærum höndum og ég er viss um að það mun áfram verða í fremstu röð næsta tímabil. Ég er geysilega stoltur af því að hafa tekið þátt í að koma Liverpool aftur í hóp efstu liða úrvalsdeildarinnar og í Meistaradeild Evrópu á ný. Takk fyrir frábærar stundir og minningar," sagði Suárez og endaði á hinni frægu ljóðlínu: „You'll Never Walk Alone."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert