Leicester sigraði stjörnum prýtt lið United

Úrslitin urðu heldur betur óvænt í tveimur fyrstu leikjum dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Stjörnum prýtt lið Manchester United beið lægri hlut fyrir nýliðum Leicester 5:3 eftir að hafa komist í 3:1 í síðari hálfleik. Þá tapaði Tottenham heima gegn W.B.A. 1:0.

Manchester United liðið byrjaði frábærlega og komst í 2:0 sextán mínútur. Fyrsta mark leiksins kom eftir 12. mínútna leik þegar að Kólumbíumaðurinn Radamel Falcao sendi frábæra sendingu á Robin van Persie sem skoraði með skalla og þá bætti Ángel di Maria við öðru marki United á 16. mínútu með frábæru skoti.

Leicester-menn voru hins vegar ekki lengi að svara og skoraði José Ulloa einungis tveimur mínútum síðar með góðum skalla. Þegar Ander Herrera kom United í 3:1 á 57. mínútu voru flestir sem bjuggust við þægilegum útisigri Manchester-manna en annað átti heldur betur eftir að koma á daginn.

Leicester svaraði með fjórum mörkum. David Nugent kom stöðunni í 3:2 með marki úr umdeildri vítaspyrnu á 62. mínútu eftir að Rafael braut vægast sagt lítið af sér.

Gamla brýnið í liði Leicester, Esteban Cambiasso jafnaði svo metin einungis tveimur mínútum síðar með skoti innan teigs og Leicester-menn fögnuðu gríðarlega, 3:3.

Þeir voru hins vegar ekki hættir og bættu við tveimur mörkum þeirra James Vardy  á 79. mínútu José Ulloa úr annari vítaspyrnu á 83. en þá hafði hinn ungi varnarmaður hjá Manchester, Tyler Blackett brotið af sér innan teigs og uppskar hann rautt spjald fyrir og urðu lokatölur 5:3.

Úrslit dagsins:
5:3 Leicester - Manchester United
0:1 Tottenham - W.B.A.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert