Hvað get ég farið fram á meira?

Wayne Rooney fagnar fyrsta marki United í dag ásamt Falcao …
Wayne Rooney fagnar fyrsta marki United í dag ásamt Falcao sem lagði það upp fyrir hann. AFP

Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United, lék sinn þriðja leik í röð á miðjunni hjá liðinu í dag og hann skoraði tvö mörk og lagði eitt upp í sigrinum á Newcastle, 3:1, í ensku úrvalsdeildinni.

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri United, sagði eftir leikinn að ekki væri hægt að biðja um meira. „Hann  skorar tvö mörk og leggur eitt upp. Hvað get ég sem stjóri farið fram á meira en það?" sagði Hollendingurinn við bBC.

„Rooney var full varnarsinnaður í síðasta leik, gegn Aston Villa, svo ég bað hann um að taka meiri þátt í sóknarleiknum. Hann hefur þol til að hlaupa í 90 mínútur sem miðjumaður. Ég get líka teflt honum fram sem sóknarmanni en hann nýtist liðinu betur á miðjunni sem stendur," sagði van Gaal.

Í kjölfarið hefur verið rifjað upp að Rooney var ósáttur þegar Alex Ferguson setti hann á miðjuna á sínum tíma og fór þá fram á að verða seldur frá félaginu. Rooney hefur nú skorað 8 mörk fyrir United í deildinni það sem af er tímabilinu en liðið er ósigrað í síðustu átta leikjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert