Þetta var fullkominn leikur

Leikmenn Chelsea fagna einu markanna gegn Swansea í gær.
Leikmenn Chelsea fagna einu markanna gegn Swansea í gær. EPA

José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, sagði að sínir menn hefðu spilað óaðfinnanlega þegar þeir léku Swansea City grátt á útivelli, 5:0, í ensku úrvalsdeildinni í gær.

„Þetta var fullkominn leikur - allt hjá okkur gekk upp. En það er ekki hægt að skrifa söguna nema vinna titla, og ef við spilum stórkostlega en vinnum ekki neina bikara, mun enginn muna eftir þessu liði," sagði Portúgalinn við fréttamenn eftir lelikinn.

Hann sagði að þessi sigur Chelsea hefði engin áhrif á leikmenn Manchester City, sem eiga erfiðan útileik gegn Arsenal í dag. Chelsea jók forskotið í fimm stig í gær en Manuel Pellegrini og hans menn myndu minnka það niður í tvö stig á ný með sigri í London.

„Þeir finna ekkert fyrir því. Þeir verða að vinna leikinn en það vissu þeir alltaf fyrir. Á okkur er engin pressa, bara ábyrgð. Lið eins og City, með alla sína reynslu, miklu meiri en við höfum, er ekki í neinum vandræðum með að höndla þetta.

Við erum með ungt lið sem á framtíðina fyrir sér, en við ætlum að reyna að gera þetta tímabil sögulegt með því að vinna eitthvað," sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert