Harry Kane hetja Tottenham gegn Arsenal

Englendingurinn Harry Kane var hetja Tottenham-manna þegar hann skoraði bæði mörk liðsins í sigrinum á erkifjendunum í Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í dag en lokatölur urðu 2:1 en með sigrinum skaust Tottenham upp í 4. sætið.

Þjóðverjinn Mezul Özil skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Arsenal strax á 11. mínútu eftir frábæran undirbúning frá Danny Welbeck sem brunaði upp kantinn, hljóp fram hjá Danny Rose bakverði Tottenham, gaf fyrir á Oliver Giroud sem átti misheppnað skot beint á Özil sem kláraði færið vel.

Heimamenn í Tottenham létu þó ekki deigann síga þrátt fyrir að vera undir og áttu fjölmörg hálffæri til þess að jafna leikinn en staðan í hálfleik, 1:0 fyrir gestina.

Harry Kane sem hefur verið magnaður á leiktíðinni fyrir Tottenham jafnaði metin fyrir Tottenham á 56. mínútu eftir hornspyrnu Tottenham en þar var Kane réttur maður á réttum stað á fjærstöng og kom hann boltanum í netið af stuttu færi. 

Kane var svo aftur á ferðinni á 86. mínútu þegar hann skoraði einstaklega fallegt skallamark eftir sendingu frá Nabil Bentaleb og allt trylltist á White Hart Lane en markið hjá Kane var hans tólfta fyrir félagið á leiktíðinni.

Með sigrinum fór Tottenham upp fyrir Arsenal og kemst liðið í 43 stig í 4. sæti en Arsenal hefur áfram 42 stig í 6. sætinu.

Fylgst var með gangi mála í ENSKA BOLTANUM Í BEINNI hér á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert