Coutinho ætti skilið að vera leikmaður ársins

Philippe Coutinho hefur sýnt frábær tilþrif að undanförnu.
Philippe Coutinho hefur sýnt frábær tilþrif að undanförnu. AFP

Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool telur að Philippe Coutinho, sem í dag var útnefndur leikmaður febrúar-mánaðar, geri tilkall til þess að verða kjörinn besti leikmaður tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni.

Coutinho hefur farið á kostum að undanförnu og er vel að viðurkenningunni sem hann fékk í dag kominn. Hann yrði einnig vel að því kominn að fá útnefningu sem sá besti á tímabilinu, að mati Rodgers.

„Hann verður alla vega í baráttunni um það, það er ekki spurning. Hann hefur leikið afskaplega vel,“ sagði Rodgers, en döpur byrjun Liverpool á tímabilinu hjálpar ekki Brasilíumanninum.

„Ég held að það hafi bitnað á honum hvernig liðið lék í byrjun tímabils, þegar okkur vantaði slagkraft fremst á vellinum. Hann er sá sem sér um að koma síðustu sendingunni á mennina sem hlaupa og skora mörkin,“ sagði Rodgers.

„Þetta vantaði hjá okkur fyrstu mánuðina. Hann þurfti því að vera lengur með boltann og var ekki eins skilvirkur, en núna nær liðið mjög vel saman, pressar og hreyfir boltann vel. Þar með nær hann að láta ljós sitt skína með sína miklu tæknilegu getu, og hann er farinn að bæta mörkum við sinn leik, og hefur skorað nokkur glæsimörk. Hann leggur mikið af mörkum og getur enn bætt ýmislegt enda ungur að árum,“ sagði Rodgers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert