Sér eftir því að hafa selt Fabregas

Cesc Fabregas skartar þessari andlitsgrímu í dag.
Cesc Fabregas skartar þessari andlitsgrímu í dag. AFP

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal segist sjá eftir þaí að hafa leyft Cesc Fabregas að fara frá félaginu en hann hefur beðið stuðningsmenn félagsins að sýna Fabregas virðingu þegar Arsenal og Chelsea mætast í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.

Fabregas, sem er 27 ára gamall, yfirgaf Arsenal fyrir fjórum árum og fór aftur til Barcelona, liðsins sem hann er uppalinn hjá. Spænski miðjumaðurinn átti erfitt með að vinna sér sæti í liðinu og hann sneri aftur til Englands og samdi við Chelsea síðastliðið sumar.

„Ég sé eftir því að hafa látið hann fara en ég vil að það sé borin virðing fyrir öllum leikmönnum,“ sagði Wenger við fréttamenn en stuðningsmenn Arsenal voru margir ósáttir við að Wenger skildi ekki ganga hart fram og fá Fabregas aftur á Emirates síðastliðið sumar.

Fabregas hefur átt frábært tímabil með Chelsea-liðinu sem er með Englandsmeistaratitilinn innan seilingar en Spánverjinn hefur verið iðinn við að leggja upp mörk fyrir félaga sína.





Cesc Fabregas.
Cesc Fabregas. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert