De Gea óánægður hjá Manchester United

David de Gea er mikið á milli tannanna hjá knattspyrnuáhugamönnum …
David de Gea er mikið á milli tannanna hjá knattspyrnuáhugamönnum þessa dagana. AFP

Eins og ævinlega eru breskir fjölmiðlar iðnir við kolann í slúðurfréttum um félagaskipti knattspyrnumanna í blöðunum þar ytra í dag. Hér má sjá yfirlit yfir helstu slúðursögurnar sem eru á kreiki á kaffistofum á Bretlandseyjum þessa dagana.

Samkvæmt frétt í Sun hefur Pep Guardiola ýjað að það því að hann sé reiðubúinn til þess að yfirgefa Bayern Munchen eftir þetta tímabil og taka í kjölfarið við stjórnartaumunum hjá Manchester City.

Daily Mirror greinir frá því að Maurico Pochettino sé í leit að djúpum miðjumanni og Tottenham Hotspur ætli að gera tilboð í Sven Bender miðvallarleikmann Borussia Dortmund.

Heimildir Guardian herma að Chelsea hafi gert Augsburg 17,5 milljón punda tilboð í varnarmanninn Baba Rahman sem kemur frá Ghana.

Daily Mirror telur að forráðamenn Aston Villa verði áfram með veskið á lofti og beini sjónum sínum næst að því að tryggja sér þjónustu búlgarska framherjans Dimitar Berbatov sem sé væntanlegur til Birmingham á mánudaginn kemur.

Forráðamenn Manchester United ætla að freista þess að ganga frá kaupum á Pedro Rodriguez frá Barcelona um helgina í kjölfar þess að félagið gengur frá sölu á Angel Di Maria til Paris Saint Germain á 45 milljónir punda ef marka má frétt í Daily Mail. 

West Ham eru meðal þeirra félaga sem renna hýru auga til mexíkóska framherjans Raul Jimenez sem leikur með Atletico Madrid samkvæmt því sem fram kemur í frétt spænska blaðsins AS. Jimenez er ætlað að fylla það skarð sem varð til vegna meiðsla Enner Valencia. Porto, Benfica, Real Betis og Villareal fylgjast einnig grannt með framvindu mála hjá Jimenez.

Spænska blaðið AS heldur því fram í frétt sinni að Louis van Gaal vilji höggva á hnútinn hvað varðar stöðu David de Gea hjá félaginu. David de Gea ku vera ósáttur í herbúðum Manchester United og er að hugsa sér til hreyfings til Real Madrid. Louis van Gaal vill fremur selja David de Gea til Real Madrid en að hafa leikmanninn ósáttan í sínum herbúðum. 

West Bromwich Albion ætlar að bæta við sig markmanni þar sem Ben Foster verður ekki klár fyrr en í október, en Foster verður frá næstu mánuðina vegna hnémeiðsla sem hann varð fyrir. Samkvæmt frétt á vefsíðunni skysports.com hefur Tony Pulis áhuga á að skoski landsliðsmarkvörðurinn David Marshall standi á milli stanganna hjá West Bromwich Albion í fjarveru Foster. 

Sunderland eru við það að ganga frá kaupum á franska miðvallarleikmanninum Yann M'Vila sem er á mála hjá Rubin Kazan samkvæmt því sem fram kemur í franska blaðinu L'Equipe. 

Dailu Mail telur að Sergio Ramos hafi haldið kyrru fyrir hjá Real Madrid til þess að bjarga skinni forsetans Florentino Perez. Blaðið segir að stuðningsmenn Real Madrid hafi ekki verið á eitt sáttir við brottför markvarðarins Iker Casillas og sala á Sergio Ramos myndi ríða Florentino Perez að fullu. 

Pedro Rodriguez - fer hann til Manchester United frá Barcelona.
Pedro Rodriguez - fer hann til Manchester United frá Barcelona. AFP
Mexíkóinn Raul Jimenez er orðaður við West Ham.
Mexíkóinn Raul Jimenez er orðaður við West Ham. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert